Þeim sem ferðast um Ísland (einkum og sér í lagi á tímabilinu september-maí) er eindregið ráðlagt að fylgjast daglega með ástandi vega (www.vegagerð.is) og veðurfari (www.vedur.is/) áður en lagt er upp í ferð.
Leiðarlýsing Reykjavík - Sauðárkrókur
Þjóðvegur 1 frá Reykjavík til Varmahlíðar í Skagafirði.
Þegar komið er að gatnamótunum fyrir framan bensínafgreiðsluna í Varmahlíð er ekið beint áfram eftir vegi 75 Sauðárkróksbraut. Eftir um 24 km akstur er beygt inn í bæinn.
Unnt er að velja aðra leið frá Blönduósi til Sauðárkróks.
Þegar komið er um 1,5 km út fyrir Blönduós er beygt til vinstri inn á Skagastrandarveg (veg nr. 74). Haldið er áfram eftir þessum vegi um 6,8 km uns komið er að skilti merkt Þverárfjallsvegur (nr. 744). Beygið þar til hægri og fylgið þessum vegi alla leið til Sauðárkróks, um 38 km.
Frá Akureyri til Sauðárkróks er hægt að velja um tvær leiðir:
Frá Akureyri til Sauðárkróks (stystu leið) eru 120 km og tekur um hálfan annan klukkutíma að aka þessa leið. Fylgja skal hringveginum (nr. 1) að gatnamótum rétt áður en komið er í Varmahlíð. Þar er beygt til hægri inn á veg nr. 75 Sauðárkróksbraut. Frá Varmahlíð eru aðeins 24 km til Sauðárkróks.
Frá Akureyri í gegnum Siglufjörð til Sauðárkróks
Frá Akureyri til Sauðárkróks eru 173 km ef farið er fyrir Tröllaskagann (gegnum Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð). Ekið er í gegnum þrenn jarðgöng á þessari leið en ekkert veggjald er greitt í göngin. Þegar komið er út fyrir Akureyri (við Lónsbakka) er ekið um 8 km eftir hringveginum (1) uns komið er að gatnamótum þar sem beygt er til hægri inn á Ólafsfjarðarveg nr. 84 en þaðan eru 34 km til Dalvíkur. Frá Dalvík til Ólafsfjarðar eru 18 km gegnum Ólafsfjarðargöng. Frá Ólafsfirði til Siglufjarðar eru 17 km gegnum Héðinsfjarðargöng. Frá Siglufirði til Sauðárkróks eru 95 km gegnum Strákagöng.
Fylgdu okkur