Hvað er hægt að gera

Afþreying á og við Sauðárkrók

Gestastofa Sútarans er staðsett á Sauðárkróki og er eina sútunarstöðin í Evrópu sem framleiðir leður úr fiskroði ásamt hefðbundnu leðri. Hér er ferðamönnum opnaður aðgangur að sútunarverksmiðju og afurðum hennar með skoðunarferð um verksmiðjuna þar sem fólki gefst tækifæri til að fræðast um hvernig roð og gærur verða að hágæða leðri. Í verslun gestastofunnar gefst fólki færi á að versla vörur úr þessu frábæra efni. 

Topphestar er hestaleiga sem er starfandi allt árið um 1 km utan við bæinn. Boðið er upp á margvíslegar ferðir sem henta öllum allt frá byrjendum til þrautþjálfaðra hestamanna. 

Í Minjahúsinu er í boði sýning sem er einstök sinnar tegundar á Íslandi, þar gefur að líta vélaverkstæði, úrsmíðastofu og söðlasmiðju sem eru óbreyttar að allri gerð frá því í gamla daga þegar starfsemi þeirra stóð í blóma. Sum þessara verkstæða voru flutt í Minjahúsið í heilu lagi með öllum fylgihlutum.

Sundlaugin á Sauðárkróki er 25m löng og við hlið hennar eru tveir heitir pottar með vatnsnuddi og mismunandi hitastigi.    Á staðnum eru bæði finnskt og innrautt gufubað. 

Fuglaskoðun í Skagafirði er freistandi valkostur. Sérstætt fuglalíf er að finna á Áshildarholtsvatni og Tjarnartjörn og í næsta nágrenni þeirra. Ekki er langt að skreppa þangað því þessi tvö vötn eru aðeins um hálfan kílómetra frá Sauðárkróki. Þetta er meðal þeirra svæða í Skagafirði þar sem skráðar hafa verið flestar fuglategundir. Bakkar Áshildarholtsvatns eru að nokkru verndaðir gegn beit og hefur það haft mjög góð áhrif á bæði fjölda tegunda og einstaklinga. Við norðanvert Áshildarholtsvatn rétt við veginn  hefur verið sett upp skilti með upplýsingum um fuglategundir á svæðinu. 

Golfvöllurinn á Sauðárkróki er staðsettur upp á nöfunum fyrir ofan bæinn í göngufæri frá öllum gististöðunum á Sauðárkróki. Þetta er lengsti níu holu golfvöllur á Íslandi í mjög fallegu umhverfi og með nægt úrval af sandgryfjum. 

Drangeyjarferðir  bjóða upp á bátsferðir út í Drangey sem er heilmikið ævintýri enda er eyjan mikil náttúruperla og mikið og fjölbreytt fuglalíf allt um kring þó að lundinn og svartfuglinn virðist ráða þarna ríkjum.

Gönguleiðir/stígar. Fyrir langa löngu voru Nafirnar sem eru hæðirnar fyrir ofan bæinn hluti af strandlengju Skagafjarðar. Uppi á Nöfunum rétt hjá kirkjugarðinum er útsýnisskífa og er það góður staður til að virða fyrir sér gamla bæinn,eyjarnar og fjallahringinn. Rétt austan við bæinn er Borgarsandur, fjögurra kílómetra löng sandströnd sem gaman er að ganga um í kvöldsólinni eða jafnvel byggja nokkra sandkastala með börnunum.

Skíðasvæðið í Tindastóli. Að vetrarlagi er gaman að renna sér á skíðasvæðinu sem er aðeins 15 km frá bænum. Misbrattar brekkurnar henta bæði byrjendum og reyndum skíðaköppum. Hægt er að taka á leigu skíði, skíðabretti, hjálma og annan búnað á staðnum. 

Snjósleðaleigan Krókaleiðir leigir út snjósleða á veturna. Á snjósleða er hægt að nálgast landið okkar á alveg einstakan hátt. Margskonar snjósleðaævintýri eru í boði allt frá klukkustundar skotferð upp í nokkurra daga leiðangra. 

 

Arctic Hotels

Kirkjutorg 3 | 550 Sauðárkrókur | Ísland

Hótel Mikligarður | Sími: (+354) 453-6330

Gistiheimilið Mikligarður | Sími: (+354) 453-6880

Hótel Tindastóll | Sími.: (+354) 453-5002

Netfang: info@arctichotels.is

Kt. 420207-0770

Fylgdu okkur